Hér má lesa bókun í fundargerðarbók félagsins frá árinu 1958, en þar kemur fram upphaf að eignarhaldi Félags Djúpmanna að landinu á Galtahrygg.
Berja -og skemmtiferð að Djúpi
Laugardaginn 30 ágúst, kl rúmlega 6 að morgni var lagt af stað í hópferð að Djúpi. Þáttakendur voru um 30. Stanzað var nokkrum sinnum á leiðinni, stutt í hvert skipti.Nesti var snætt í Svínadal. Komið var í Ísafjarðarbotn kl 5.e.h. og voru þar tínd ber til kl.7:30 en þá var haldið til áfangastaðar, Heydal í Mjóafirði og var komið þangað laust fyrir kl 9 síðdegis. Tjöld voru reist á eyrum en síðan var kvöldinu eytt heima hjá Elínusi bónda. Voru þar miklar og góðar veitingar fram bornar, ræðuhöld voru nokkur og söngur ágætur. Var það mál manna að kvöldvaka sú hefði verið mjög til fyrirmyndar og öllum til mikillar ánægju. Laust fyrir kl 1 gengu menn heim til tjaldbúða sinna. Árla morguns risu ferðalangar úr rekkju eða öllu heldur skriðu úr pokum sínum. Velflestir fóru til berja, en fundu minna af berjum en í Ísafirði. Um kl 2.e.h. var haldið út að Sjónarhól, en þar afhenti Elínus Jóhannesson Félagi Djúpmanna landspildu að gjöf með gjafabréfi sem vottfest var skriflega þar á staðnum. Formaður félagsins þakkaði hina höfðinglegu gjöf með stuttri ræðu. Um kl 5.30 var búið að fella tjaldbúðir og var að því búnu lagt af stað. Veður var ákaflega milt bæði laugardag og sunnudag svo að vart varð á betra kosið. Söngur var almennur á heimleið enda virtust allir mjög ánægðir með vel heppnaða ferð. Komið var til Reykjavíkur kl.6 á mánudagsmorgni 1.september og var þá nýgengin í gildi 12 mílna fiskveiðilögsaga.
Friðfinnur Ólafsson - Runólfur Þórarinsson.
Gjafabréf
Ég undirritaður Elínus Jóhannesson, Galtarhrygg Reykjafjarðarhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu afhendi hér með og gef Félagi Djúpmanna í Reykjavík, landspildu þá úr Galtahryggslandi sem verður nánar tiltekið í afsalsbréfi. Landið var útmælt í dag og ákveðið af umboðsmönnum félagsins og mér sjálfum er það afhent sem gjöf til minningar um konu mína Þóru Runólfsdóttur, sonu mína og mig sjálfan, en öll höfum við búið í þessum dal. Gjöf þessari fylgir það skilyrði að landið megi aldrei selja og fari svo að starfsemi Félags Djúpmanna leggist niður og því slitið, skal landið renna til lögmætra arfa minna. Það er hinsvegar ósk mín og von að Félag Djúpmanna megi reynast trútt sínum tilgangi og efli vinarhug og bræðraþel millum Djúpmanna heima og heiman.
Gjört að Galtahrygg 31.ágúst 1958
Elínus Jóhannesson.
Vottar. Ólafur Ólafsson, Skálavík - Einar Vernharðsson frá Hvítanesi
Á aðalfundi félagsins 6.nóvember 1960 skýrði Friðfinnur Ólafsson, formaður frá því að hann ásamt ritara félagsins hefðu valið stað á svonefndum Álfkonukletti fyrir væntanlegan skála félagsins í landi Galtahryggs við Djúp.
Rætt er um í fundargerðum næstu ára hvernig nýta eigi landið og að koma eigi upp skála eða húsi fyrir veitingasölu. Fátt er gert í þeim efnum af hálfu félagsins enda fjárfrek framkvæmd en eins og Friðfinnur komst að orði, "viljinn dregur". Það er svo ekki fyrr en þann 11. september 1973 að sótt er um byggingarleyfi fyrir veitingaskála til hreppsnefndar og þann 16.september 1973 sem hreppsnefnd Reykjafjarðarhrepps samþykkir byggingaleyfi fyrir húsið. Þá kemur fram að Húsasmiðja Snorra Halldórssonar h.f. hafi gert tilboð í smíði hússins, fokhelt afgreitt á bíl upp á 2.2 millj.
Það er svo sumarið 1974 sem framkvæmdir fara í fullan gang í landi Galtahryggjar en þá var húsið flutt vestur. 12 félagsmenn ásamt þremur smiðum frá Húsasmiðjunni unnu að frágangi við húsið. Þegar húsið var komið á staðinn, fullglerjað og frágengið var kostnaðurinn kominn upp í 3,3 millj. kr.
Djúpmannabúð opnuð
Á stjórnarfundi þann 22.júní 1976 var gengið til samninga við þau Gerði Sturlaugsdóttur, frá Múla og Stefán K Stefánsson um rekstur veitingaskálans og skálanum gefið nafnið Djúpmannabúð. Ákveðið að fara og gera klárt fyrir opnun en til stóð að Esso flytti vestur bensínsöluskúr og komið yrði fyrir bensíndælu.
Þá skýrði Helgi Þórðarson formaður félagsins frá því að Gunnar Valdimarsson í Heydal, oddviti hafi tilkynnt þá ákvörðun Reykjafjarðarhrepps að gefa Djúpamannabúð 100.000 þús. kr. Ekkert rafmagn var í húsið og var búið að fá lánaða 6 kw diselrafstöð og kósangas yrði notað til eldunar. Þá var enginn sími í húsinu. Djúpmannabúð var engu að síður opnuð og var opið frá og með 8.júlí til 12. september.
Vígsluhátíð Djúpmannabúðar 23.júlí 1977
Kl. 15:00 hófst formleg vígsla með ræðu formanns Félags Djúpmanna, Helga Þórðarsonar. Nokkuð mikill mannfjöldi var við vígsluna, bæði búsettir sem burtfluttir Djúpmenn og aðrir gestir eða um eða yfir 100 manns.
Djúpmannabúð var svo strafrækt frá 1976 til 2000 sem veitingaskáli með sumaropnun en fram kemur að reksturinn hafi oft á tíðum verið félaginu erfiður. Á stjórnarfundi þann 26.oktober 2000 var tekin sú ákvörðun að auglýsa Djúpmannabúð til sölu. Tilboð í eignina var síðan samþykkt á félagsfundi þann 8.mars 2001 og Djúpmannabúð seld.
Eftir stendur að landspildan er í eigu Djúpmannafélagsins og því er það okkar að finna landinu hlutverk eða notagildi í þágu félagsmanna. Tjaldstæði er innan girðingar og mikið hefur verið gróðursett af trjáplöntum þannig að um sælureit í fallegu umhverfi er að ræða. Svo eru tvö hús eða "skúrar" á landinu sem eru í eigu félagsins.