Djúpmannatal

Félag Djúpmanna í Reykjavík var stofnað 30. apríl 1954 í þeim tilgangi að verða samskiptavettvangur Djúpmanna búsettra á höfuðborgarsvæðinu. Fyrsti formaður þess, Friðfinnur Ólafsson frá Strandseljum, lýsti öðrum viðfangsefnum þess á sumarfagnaði 1955 á þessa leið:
 a) Skrá sögu Djúpsins og örnefni. Myndum verði safnað frá þeim tíma áður en húsaskipan breyttist.
 b) Félagið beiti sér fyrir því að koma upp gisti- og greiðasölustað í Djúpinu.
Segja má að þetta hafi verið höfuðviðfangsefni félagsins síðan. Hér á eftir verður rakinn skv. fundargerðarbókum félagsins tilurðarferill þess, sem nú gengur undir nafninu „Djúpmannatal“.

 

Á aðalfundi 24. nóv. 1956 hreyfir gjaldkeri  félagsins,  Óskar Sigurðsson frá Bæjum, því að skrifa þurfi sögu ábúenda og jarða við Djúp.

 

Í skýrslu formanns [F.Ó] á aðalfundi 20. okt 1957 segir hann, „að rætt hafi verið við Jóhann Hjaltason, sem ætti  margt í fórum sínum og væri fús til að skrásetja ýmislegt varðandi menningar- og atvinnuhætti  við Djúp.“


Á aðalfundi  2. nóvember 1958 er kjörin útgáfunefnd: Helgi Þórarinsson formaður, Hjörtur Kristmundsson og Gunnar Guðröðsson.
Á stjórnarfundi  7. nóv. 1961 „kom ritari með á fundinn örnefnaskrár, sem Jóhann Hjaltason hafði gert yfir 4 innstu hreppa Djúpsins. Samþykkt að greiða Jóhanni  kr. 4.700.-, uppsett verð.“


Á aðalfundi 18. nóv. 1966 kveður formaður [F.Ó] Jóhann Hjaltason hafa afhent félaginu síðasta handritið að örnefnaskrá sinni.


Stjórnarfundur 14. nóv. 1967: Ákveðið að kynna sér möguleika á því, að félagið annist útgáfu á fróðleiksþáttum frá Djúpi, sem teknir yrðu saman af Jóhanni Hjaltasyni, - á eigin vegum eða  í samvinnu við Sögufélag Ísfirðinga.


Aðalfundur 16. nóv. 1967: Samþykkt „ að stjórnin athugi möguleika á því að gefa út – eitt sér eða með öðrum - ýmiss konar  fróðleik, héraðslýsingu, sagnir um menn og málefni og annað það efni, sem tengt er við Djúp og fengur mætti vera í að gengi út á þrykk.“


Á stjórnarfundi 6. nóv. 1968 segist formaður hafa kannað málið og rætt við Jóhann Hjaltason.


Aðalfundur 21. nóv. 1968: Formaður reifaði málið og fjallaði um ársrit á vegum félagsins. Las upp bréf frá Jóhanni Hjaltasyni um aðstoð við samningu efnis og nokkrar tillögur um efnisval.


Aðalfundur 27. nóv. 1969: „Í skýrslu sinni sagði formaður [Runólfur Elínusson] m.  a.  frá viðræðum sínum við Jóhann Hjaltason fræðimann og skýrði frá því því hvaða möguleikar væru fyrir hendi með útgáfu ársrits og taldi að réttara væri að safna saman upplýsingum og fróðleik frá Djúpi og um Djúpmenn í stærra formi og gefa síðan út í stóru riti eða bók.“ „Óskar Sigurðsson taldi brýna nauðsyn bera til að hraða skráningu Djúpmannasögunnar, m. a.  vegna þess að maður sá er fyrirhugaður væri til verksins væri tekinn að fullorðnast og því ekki að vita hve lengi hans starfskrafta yrði notið.“ Steingrímur Helgason tók undir orð Óskars og vildi að fundurinn samþykkti ákveðna upphæð til að hefja málið. Runólfur Þórarinsson greindi frá erfiðleikum Sögufélags Ísfirðinga við sagnasöfnun og benti á möguleika á samvinnu við það. Óskar Sigurðsson bar fram tillögu um nefnd sem ræddi við Jóhann Hjaltason um sögu Djúpmanna. Samþykkt og í nefndina kosnir Óskar Sigurðsson, Steingrímur Helgason, Árni Stefánsson og Runólfur Þórarinsson. Runólfur Elínusson sjálfkjörinn í nefndina sem formaður hennar. Að lokum samþykkti fundurinn um ótakmarkað vald stjórnarinnar til að ráðstafa fé til handritakaupa af Jóhanni Hjaltasyni fræðimanni.


Aðalfundur 13. des. 1973: Í skýrslu formanns kemur fram að undirbúningur að bókaútgáfu sé í gangi, Snæfjallahreppur sé að mestu búinn og Nauteyrarhreppur langt kominn. Tímabilið 1874 -1974. Kjartan Halldórsson leggur til að fjölskyldur í félaginu leggi til myndir af fólki og jörðum til birtingar í væntanlegu riti félagsins. Friðrik Guðjónsson taldi óþarfa að fara lengra aftur en til aldamótanna. Friðfinnur Ólafsson vildi fá sérfróðan mann til að koma bókaútgáfunni í fullan gang og að félagið kæmi sér upp myndasafni, auglýsti eftir myndum. „Guðmundur Guðni var fremur óánægður með undirbúning að bókaútgáfunni og vildi safna myndum af mönnum og býlum og ákveða skýrt hvað ætti að vera í bókinni.“


Aðalfundur 13. des.  1974: Formaður [Jóhann Þórðarson] skýrði frá útgáfustarfseminni og sagði að Jóhann Hjaltason hefði lokið við 4 hreppa en samanburði væri ekki lokið og veikindi hefðu tafið Jóhann við verkið. Steingrímur Helgason vildi láta ljósmynda alla bæi við Djúp og þá menn og konur, er stæðu fyrir búum þar. Hann benti á að fé þyrfti til útgáfustarfseminnar og því verki yrði að hraða eins og kostur er. Jóhann Þórðarson: „Jóhann Hjaltason vildi ekki meiri greiðslur þar sem veikindi hans hefðu orðið til að tefja  verkið.“


14. nóv 1975 aðalfundur. (Guðm. Guðni er fundarritari og skrifar fundargerð)
Í inngangsorðum formanns [J. Þ.] sagðist hann hafa talað við Jóhann Hjaltason um ritverk það er hann hefur unnið að undanfarið fyrir félagið. Vildi formaður að fleiri yrðu fengnir til að ræða við Jóhann um þetta ritverk og benti hann á Guðmund Guðna í því sambandi.


Stjórnarfundur 6. ágúst 1976.
Formaður [Helgi Þórðarson] tjáði stjórninni að Árni Jóh. hefði komið að máli við sig, því að hann hefði áhyggjur af því að enginn væri inni í útgáfumálum og Jóh. Hj. er nokkuð við aldur, svo að nauðsynlegt væri að einhver annar væri inni í málinu. Stjórnin samþykkti að fá Guðmund Guðna til að tala við Jóh. Hj. og kynna sér á hvaða stigi verkið er og hvernig það hefur verið unnið.


Aðalfundur 18. nóv 1976
„Þá ræddi form. [H.G.Þ.]  um söguritun félagsins og hafði Jóh. Hj. sent kveðju sína á fundinn og tilkynnt að sökum aldurs og lasleika gæti hann ekki unnið meir að sögurituninni, en óskaði eftir að einhver setti sig inn í málið, en Guðmundur Guðni Guðm.son hafði þá haft samband við Jóhann...“ „Guðm. Guðni tók til máls og ræddi um útgáfustarfsemina og m.a. hve langt aftur í tímann ætti að fara. Guðm. taldi að miða ætti við árið 1703“. Friðfinnur tók undir það með G.G. G.
Guðm. Guðni stakk upp á því að kjósa ákveðna menn til að annast söguritun. Fundarmenn samþykktu síðan að miða verkið við 1703 og ennfremur að fela stjórninni að kjósa framkvæmdanefnd til að koma verkinu af stað.“


Stjórnarfundur 22.  jan. 1977
„Að lokum kaus stjórnin nefnd til að annast framhald söguritunar félagsins. Kjörnir voru: Helgi G. Þórðarson, Friðfinnur Ólafsson og  Guðm. Guðni Guðmundsson.


Aðalfundur 13. nóv. 1977
Skýrsla formanns: „Þá er að segja frá söguritun, en Guðmundur Guðni hefur unnið nokkuð að því undanfarið, þar sem Jóhann Hjaltason er svo farinn að heilsu, að hann óskaði eftir að einhver tæki við því verki af sér.“ ---
„Síðan ræddi Guðmundur Guðni um útgáfuna og nefndina, sem starfa átti að henni, en hún hefur ekki komið saman til fundar. Guðmundur er byrjaður að gera spjaldskrá um Djúpmenn. Einnig stakk hann upp á því að útbúin yrðu eyðublöð og send til íbúa hreppanna við Djúp til uppfyllingar.


Stjórnarfundur 8. feb. 1979
Form. [HGÞ] skýrði frá heimsókn til Jóhann Hj. 19. nóv. 1978. Þar mættu Helgi, Friðfinnur, Guðmundur Guðni og Árni Jóhannsson. Guðmundur Guðni tók við því sem Jóhann hafði safnað, þ.e. bændatal frá aldamótum til 1970 fyrir 4 hreppa í Djúpinu. Jafnframt afhenti Jóhann þeim félögum bréf  dags. 4. okt. 1978 þar sem hann gerði nánari grein fyrir starfi sínu og tilkynnti að hann hefði lagt kr. 100.000.- inn á bók til stuðnings verkinu.


Aðalfundur 11. mars 1979
Þá tók til máls Guðm. Guðni Guðmundsson um um söguritunina. Hann er þegar byrjaður að vinna af fullum krafti, að afskrifa allar kirkjubækur í sóknunum við Djúp. Torfi Sigurðsson er nú þegar byrjaður að vinna með Guðmundi, en hann hvatti alla félagsmenn til að gefa sig fram til aðstoðar við þessa vinnu. Hann taldi æskilegt að ljósrita gögn úr þjóðskjalasafninu, svo auðveldara yrði að nýta heimavinnu fólks, því taka þyrfti upp á skrá alla, sem fæddir eru við Djúp eftir árið 1703. Taldi hann slíka ljósritun mundi kosta um kr. 50.000.-.  Guðm. Guðni lauk að lokum lofsorði á hve mikill stuðningur framlag Jóhanns væri við verkið og vonaði hann að vaxandi áhugi vaknaði meðal  félagsmanna til að vinna að þessum fræðistörfum.“
Friðfinnur tók til máls og hvatti fólk til að aðstoða Guðmund Guðna við söguritunina. Friðrik Guðjónsson taldi of langt farið aftur í tímann: taldi nóg að fara aftur til síðustu aldamóta. Runólfur Elínusson vildi gera sögu Djúpmanna sem veglegasta og sjálfsagt að rekja aftur til 1703. Friðfinnur benti á að að [aðalfundar]samþykkt væri til fyrir því að fara aftur til 1703.“
Guðmundur Guðni ræddi nokkuð áfram um söguritun og sagðist vera búinn að taka upp úr kirkjubókum fram til ársins 1810; einnig benti hann á að mikið mætti nota úr Arnardalsætt. Ennfremur bað Guðmundur Guðni félagsmenn að halda til haga myndum af fjölskyldum og einstaklingum og hafa tiltækt þegar á þarf að halda.“ (Guðmundur Guðni gekk úr stjórn á þessum aðalfundi).


Aðalfundur 21. mars 1982
,, Guðmundur Guðni flutti skýrslu sína um söguritun Djúpmanna. Taldi Guðmundur Guðni að það vantaði að ákveða á hvaða grunni ætti að vinna verkið. Sagðist hann aðallega hafa einbeitt sér að gagnasöfnun. Spjaldskrá með nöfnum Djúpmanna verði fljótlega tilbúin. Ræddi hann nokkuð um tilhögun á ritun á sögunni. Minnti hann á að kjósa þyrfti mann í nefndina í staðinn fyrir Friðfinn Ólafsson, sem er látinn, og svo þurfi nefndin að halda fleiri fundi.“
Söguritunarnefnd: Uppástunga um Runólf Elínusson en hann baðst undan kjöri og stakk upp á Runólfi Þórarinssyni og var hann kjörinn.


Aðalfundur 27. mars 1983
„ Þá flutti Guðmundur Guðni formaður nefndar um ritun sögu Djúpmanna skýrslu sína. Kvað hann unnið áfram að söfnun gagna til ritunar sögu Djúpmanna.


Aðalfundur 27. mars 1988
„Söguritun félagsins. Að tilhlutan Árna Jóhannssonar kom fram hugmynd um breytingar á söguritunarnefndinni og Guðmundur Guðni verði leystur frá störfum sökum heilsuleysis“.
 ,,Helgi [formaður] kom með tillögun um breytingar á söguritunarnefnd. Kosnir urðu: Árni Jóhannsson, Helgi G. Þórðarson, Runólfur Þórarinsson. Var það samþykkt.“

 

Aðalfundur 18. febrúar 1993
Skýrsla sögunefndar. „ Arnór [Hannibalsson] skýrði frá því að verið væri að skrifa héraðssögu og byrjað væri því að safna gögnum í Nauteyrarhreppi. Ritstjóri þessa verks er Kjartan Ólafsson. En hann hyggst rita sögu Vestfjarða frá Landnámsöld. Hyggst hann skipa með sér sérfræðing úr hverjum hreppi. Arnór og Árni Jóhanns hafa heitið aðstoð sinni við.“
Á þessum fundi voru kosnir í söguritunarnefnd Arnór Hannibalsson og Árni Jóhannsson. ( Nýr formaður félagsins: Ásdís Samúelsdóttir)


Stjórnarfundur 19. október 1994
„ Rædd málefni Djúpmannabúðar og útgáfa ábúendatals. Theodór Halldórssyni falið að ræða við sögunefnd og semja um útgáfu og útgáfukostnað, sem lagt verði fyrir stjórn til samþykktar.“


Aðalfundur 11. maí 1995
 „Arnór Hannibalsson flutti skýrslu sögunefndar um áhuga á að koma út æviskrám Djúpmanna. Umleitanir hans að útgáfumöguleika. Fram kom að kostnaður gæti orðið á bilinu 12-18 milljónir og leita og rannsaka þyrfti fjármögnunarmöguleika. Arnór taldi að ekkert í þessu máli hefði verið gert hjá stjórn félagsins.“

 

Stjórnarfundur 24. apríl 1998
„ Formaður [Ásdís] skýrði frá því, að í vetur hefði verið unnið að því að koma ættarskrám Djúpmanna í úrvinnslu og samkomulag náðst við Íslenska erfðagreiningu um að vinna úr handriti Jóhanns Hjaltasonar fyrir haustið. Lengra hefði ekki verið unnt að komast að sinni en áfram væri unnið að málinu.“


Aðalfundur 10. maí 1998
„ Þá var þráðurinn tekinn upp með ættartölur Djúpmanna ( samanber bókun á síðasta stjórnarfundi). Helgi G. Þórðarson skaut inn skýringu á forsögu málsins. Áfram verður unnið að framgangi þess í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu.“
Aðalfundur 10. febrúar 2000 (fyrir 1998 og 1999)
„Formaður [Kristinn Halldórsson] skýrði frá starfi sögunefndar. Guðmundur Guðni seldi sitt handrit Þorsteini Jónssyni. Nefndin fór á fund Kára Stefánssonar í því skyni að fá samvinnu við Íslenska erfðagreiningu um söfnun efnis í Djúpmannatal. Kári tók erindinu vel. Síðan hefur ekki verið leitað eftir. En nýlega tilkynnti Kári að Íslensk erfðagreining í samvinnu við Friðrik Skúlason myndi veita ókeypis aðgang öllum landsmönnum að tölvugagnagrunni með ættum Íslendinga.“

 

Aðalfundur 19. september 2002
Kosnir í söguritunarnefnd: Arnór Hannibalsson og Árni Jóhannsson.
 „Önnur mál. Arnór Hannibalsson rakti feril og aðdraganda Djúpmannatals. Jóhann Hjaltason hóf verkið. Síðan kom að því Guðmundur Guðni Guðnason. Hann framseldi verkið Þorsteini Jónssyni. Á undanförnum árum hefur nefndin reynt að semja við Þorstein Jónsson um útgáfu eða endurheimt handritsins sem þá var komið inn á tölvu. Við gjaldþrot Genealogia Islandorum voru samningar teknir upp við skiptaráðanda þrotabús. Sá léði máls á því að láta verkið af hendi í tölvutæku formi ásamt ljósriti af handriti Guðmundar Guðna fyrir krónur 250.000 –. Ásgeir Svanbergsson væri reiðubúinn að halda verkinu áfram og ganga frá því til prentunar. Prentsmiðjan Oddi gæti prentað verkið fyrir krónur 2200 pr. eintak, ef tryggð væru 100 eintök. Sitt sýndist hverjum um að verja öllu -  eða nálega öllu – fé félagsins til þessa verkefnis. Samþykkt að ganga að því að fá handrit Djúpmannatals úr þrotabúi Genealogia Islandorum fyrir krónur 250.000.-. Söguritunarnefnd falið að ganga frá málinu og leggja síðan fram tillögur um frekari framgang málsins þegar fjárhagsáætlun liggur fyrir.

 

Stjórnarfundur 5. febrúar 2009
„Fundarefni: Ættaskrár Djúpmanna. Tekið fyrir tilboð frá Ólafi Engilbertssyni um hönnun, umbrot,  prentumsjón og dreifingu á vegum Sögumiðlunar ehf. Ákveðið að skoða þetta nánar og hrinda í framkvæmd með sem ódýrustum og hagkvæmustum hætti.“


Aðalfundur 28. október 2010 
Í skýrslu formanns [Kristins Halldórssonar] um starfsemi félagsins síðustu 9 ár, kom meðal annars eftirfarandi fram: Frá því að félagið endurheimti [ættaskrár Djúpmanna] úr klóm Genelogia Islandorum þrotabús, hefur það varið um 1.850.000 krónum til að slá þær inn á tölvu og búa undir prentun.
Ólafur Hannibalsson gerði grein fyrir stöðu verksins Ættarskráa Djúpmanna og taldi nokkurra vikna vinnu enn þurfa til að hann geti lokið verkinu. Arnór vakti máls á því að til væru myndir sem gætu prýtt ritið, nú í eigu Jóns Bjarnasonar [ljósmyndara á Ísafirði og í Kópavogi]. Ólafur bætti við að hann hefði haft samband við Guðfinnu Hreiðarsdóttur, formanns Sögufélags Ísfirðinga, sem hefði tekið vel í það, að Sögufélagið styrkti útgáfu Djúpmannatals með einhverju móti.
Ólafur lagði fram á fundinum til kynningar handritið að Djúpmannatali með skriflegum áorðnum breytingum, síðan hann kom að verkinu.
 

 

VEFSMÍÐI: STYX EHF. KNÚIÐ AF: WebSmith