Hér á heimasíðunni okkar verða birtar upplýsingar um Félag Djúpmanna, félag sem í daglegu tali er kallað Djúpmannafélagið. Við lögðum af stað með þá von í brjósti að gerlegt yrði að blása nýju lífi í Djúpmannafélagið, tilgangurinn með félagsskapnum sé og verði að halda utan um Djúpmenn með virkum hætti, hittast, kynnast og/eða endurnýja gömul kynni. Félagið er fyrir alla Djúpmenn, búsetta sem burtflutta svo og alla þá sem tengjast Djúpinu vináttu og eða ættarböndum. Starfið hjá félaginu hefur ekki farið geyst af stað hjá nýrri stjórn en viljinn er fyrir hendi aðeins vantar upp á meiri tíma til aflögu og að virkja félagsmenn.
Félag Djúpmanna í Reykjavík, var stofnað þann 30 april 1954 og var þá upphaflega hugsað sem vettvangur fyrir burtflutta Djúpmenn í Reykjavík og nágrenni eins og nafnið gefur kannski til kynna. Í dag er að mörgu leiti önnur staða uppi og viljum við gjarnan fá alla þá í félagið sem eiga einhver tengsl við Djúpið óháð búsetu en flestir skráðra félaga eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu.
Heimasíðan og vinnan framundan.
Þessi heimasíða er unnin af Magnúsi Hávarðarsyni í Bolungarvík og ljósmyndir voru fengnar með góðfúslegu leyfi höfundar, áhugaljósmyndarans og ísfirðingsins Ágústs Atlasonar en hann hefur farið um ægifagurt Djúpið með myndavélina að vopni og leyfir okkur að njóta. Færum við honum okkar bestu þakkir fyrir og hvetjum þá sem eiga góðar ljósmyndir á stafrænu formi að koma þeim til okkar.
Heimasíðan er enn í þróun og vinnslu en búið er að opna fyrir innskráningu og nýskráningu í félagið. Skráðir félagar koma til með að fá sent bréf með upplýsingum um hvernig þeir geta skráð sig inn á lokað svæði heimasíðunnar. Inn á þessu lokaða svæði verða geymdar upplýsingar um skráða félaga, jafnvel með upplýsingum um tengsl viðkomandi við Djúpið, nálgast félagatal og aðrar upplýsingar um Djúpið t.d. gömlu hreppana, bæina og fólkið sem byggði sveitirnar í kringum gullkistuna líkt og Djúpið var stundum kallað hér áður. Þá er það von okkar að þessi heimasíða geti orðið vettvangur þar sem fram kemur hvað eina sem félagið stendur fyrir.